Stöðuleyfi

Stjórn UTU hefur gefið út samþykkt um stöðuleyfi sem staðfest hefur verið af öllum aðildarsveitarfélögum byggðasamlagsins.  Samþykktinni er ætlað að gefa skýrar leiðbeiningar um hvenær sótt skuli um stöðuleyfi og eftir hvaða verkreglum starfsmönnum UTU er ætlað að vinna. Áréttað er í samþykktunum að sækja þurfi m.a. um stöðuleyfi fyrir gámum, frístundahúsum í smíðum sem ætluð eru til flutnings, bátum sem geymdir eru tímabundið á landi og torgsöluhúsum og/eða stórum samkomutjöldum sem sett eru upp til skamms tíma í tengslum við einstaka viðburði. Þá er í samþykktunum farið yfir hvaða heimildir byggingarfulltrúi hefur til að bregðast við lausafjármunum sem ekki hefur verið veitt stöðuleyfi fyrir.

Stöðuleyfi má lögum samkvæmt veita til 12 mánaða að hámarki nema ákvæði skipulagsins á því svæði sem um ræðir mæli fyrir um annað.

Hægt er að sækja um stöðuleyfi innan aðildarsveitarfélaga UTU á Þjónustugátt UTU  þar sem umsækjandi þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.

Samkvæmt núgildandi gjaldskrá UTU kostar útgáfa stöðuleyfis 18.580 kr. óháð lengd stöðuleyfisins.

Samþykkt Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. um útgáfu stöðuleyfa



Stöðuleyfi

Stöðuleyfi

Samkvæmt ákvæði 2.6 greinar í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda (byggingarfulltrúa) ef til stendur að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna.

Þannig skal samkvæmt reglugerðinni sækja um stöðuleyfi fyrir eftirfarandi:

  • Hjólhýsi yfir vetrartímann, þ.e. á tímabilinu frá 1. október til 1. maí.
  • Gáma
  • Báta
  • Torgsöluhús
  • Frístundahús í smíðum sem ætlað er til flutnings
  • Stór samkomutjöld.

Aðildarsveitarfélög UTU hafa sett fram Samþykkt Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs um stöðuleyfi sem lóða- og landeigendum í sveitarfélögunum sex ber að fara eftir. Byggingarfulltrúa UTU er falið að fylgja því eftir að svo verði gert.

Fyrir lóða- og landeigendur í aðildarsveitarfélögum UTU er hægt að sækja um stöðuleyfi í Þjónustugátt UTU þar sem umsækjandi skráir sig inn með rafrænum skilríkjum. Umsækjandi þarf að vera eigandi eða ábyrgðarmaður  viðkomandi hlutar eða hönnuður í umboði eiganda/ábyrgðarmanns. Nauðsynlegt er að með umsókn fylgi (í viðhengi) samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Í umsókn skal gerð grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis. Í viðhengi með umsókn skulu fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna.

Lausafjármuni skal staðsetja þannig að almenningi stafi ekki hætta af og ekki sé hætta á að eldur geti borist frá þeim í aðliggjandi hús. Ennfremur skal þess gætt að aðgengi slökkviliðs að aðliggjandi húsum sé ekki torveldað.  Handhafi stöðuleyfis er ábyrgur fyrir því að ekki skapist hætta vegna lausafjármuna og er leyfisveitanda heimilt að krefja eiganda um gögn og rökstuðning þar að lútandi.

Handhafi stöðuleyfis er ábyrgur fyrir því að hreinlætisaðstaða í og við lausafjármuni sem falla undir þessa grein uppfylli ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og ákvæði laga um fráveitur og laga, reglugerða og reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eftir því sem við á hverju sinni.

Lögum samkvæmt eru stöðuleyfi mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað. Heimilt er að endurnýja stöðuleyfi eftir að það hefur fallið úr gildi, enda berist ný umsókn sem uppfyllir skilyrði.

Gjald vegna stöðuleyfis má sjá í 6. grein í gjaldskrá Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs.

 

Leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stöðuleyfi

 

Síða uppfærð: 27.09.2022