03 mar Nýr skipulagsfulltrúi Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs.
Vigfús Þór Hróbjartsson hefur verið ráðinn nýr skipulagsfulltrúi Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá og með 1. apríl 2020. Vigfús tekur við starfinu af Rúnari Guðmundssyni sem hefur verið ráðinn skipulagsfulltrúi í Skagafirði.
Vegna þessara mannabreytinga verður starfsemi skipulagssviðs UTU í lágmarki í marsmánuði. Næsti skipulagsnefndarfundur embættisins er áætlaður þann 8. apríl n.k.
Vigfús Þór er útskrifaður byggingafræðingur frá Háskóla Reykjavíkur og er að ljúka meistaranámi í skipulagsfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands nú í vor. Hann hefur undanfarið eitt og hálft ár starfað hjá Eflu verkfræðistofu á Selfossi en þar á undan starfaði hann sem skipulags- og byggingarfulltrúi í Mýrdals- og Skaftárhreppum. Vigfús er er í sambúð með Guðnýju Guðjónsdóttur, sjúkraliða og þroskaþjálfa og eiga þau fjögur börn.
Vigfús Þór er boðinn velkominn til starfa hjá UTU og hlökkum við til samstarfsins.
Rúnari Guðmundssyni eru þökkuð vel unnin störf fyrir embættið undanfarin ár og óskum við honum velfarnaðar í nýjum heimkynnum.