Deiliskipulag

 

Deiliskipulag nær til afmarkaðs svæðis sem myndar heildstæða einingu, s.s. hverfi eða hverfishluta í þéttbýli, sumarbústaðahverfis eða tiltekinna húsaþyrpinga í dreifbýli. Deiliskipulag skal alltaf byggt á og vera í samræmi við stefnu í aðalskipulagi sveitarfélagsins og það skal skal sett fram með skipulagsuppdrætti ásamt skipulagsgreinargerð og gjarnan einnig á skýringaruppdráttum og skýringarmyndum.

Í deiliskipulagi eru sett inn ákvæði um byggingarheimildir og útfærslu bygginga, s.s. um hönnun, efnisnotkun, stærðir, staðsetningu og notkun húsa, og jafnframt frágang umhverfis. Í deiliskipulagi eru einnig sett inn ákvæði um lóðir og almannarými eins og götur, torg, leiksvæði og almenningsgarða í þéttbýli svo eitthvað sé nefnt.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð deiliskipulags og annast skipulagsnefnd sveitarfélagsins gerð þess í umboði sveitarstjórnar. Landeigandi eða framkvæmdaraðili getur óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað og er það algengasta leiðin við gerð deiliskipulaga. Að fengnu leyfi sveitarfélagsins gerir landeigandi eða framkvæmdaraðili síðan deiliskipulagið samkvæmt sínum aðstæðum og hugmyndum og ef sveitarstjórn samþykkir slíka tillögu að deiliskipulagi hefur sveitarstjórn þar með gert deiliskipulagið að sínu og ber ábyrgð á framfylgd þess.

Bygginga- og framkvæmdaleyfi skulu alltaf vera í samræmi við skipulag og er því mikilvægt að vandað sé til verka við gerð deiliskipulagsins til að komast hjá óþarfa kostnaði og töfum á framkvæmdum sem síðari breytingar á deiliskipulagi kalla óhjákvæmilega á.

Almenna reglan er sú að bygginga- og framkvæmdaleyfi skuli byggja á deiliskipulagi en framkvæmdaleyfi geta reyndar í ákveðnum tilvikum eingöngu byggt á aðalskipulagi.

Nánari upplýsingar um byggingaleyfi

Ef forsendur eða framkvæmdaáform breytast getur það kallað á breytingar á deiliskipulagi og í 43. grein skipulagslaga er mælt fyrir um hvernig fara skuli með breytingar á deiliskipulagi. Málsmeðferð er mismunandi eftir því hvort breytingin telst vera veruleg eða óveruleg en skipulagsnefnd/sveitarstjórn leggur mat á það í hverju tilviki fyrir sig. Við mat á því er tekið mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.

Sé niðurstaðan sú að beiðni um breytingu deiliskipulagsins teljist vera veruleg skal í raun gert nýtt deiliskipulag fyrir viðkomandi svæði og eldra deiliskipulag fellt úr gildi. Ef niðurstaðan er aftur á móti sú að ósk um breytingu á gildandi deiliskipulagi sé óveruleg er nóg að skipulagsnefnd og sveitarstjórn samþykki breytingartillöguna að fenginni ítarlegri grenndarkynningu þar sem nágrannar og mögulega aðrir hagsmunaaðilar fá allt að fjórar vikur til að skila inn athugasemdum um fyrirhugaðar breytingar.

Skipulagsnefnd er heimilt að  stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem fengu grenndarkynninguna senda til sín undirrita allir yfirlýsingu á tillöguuppdráttinn um að þeir geri ekki athugasemdir við breytinguna. Skipulagsnefnd er jafnframt heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á með fullnægjandi rökum að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.

Yfirlit um ferli deiliskipulags

Á kortasjá embættisins má finna flestar gildandi deiliskipulagsáætlanir innan aðildarsveitarfélaga embættisins.

 

Síða uppfærð: 10.09.2022