Skipulagsnefnd fundur nr. 136 – 22. júní 2017

Skipulagsnefnd – 136. fundur Skipulagsnefndar

haldinn Flúðir, 22. júní 2017

og hófst hann kl. 09:00

 

Fundinn sátu:

Árni Eiríksson, Aðalmaður, Björgvin Skafti Bjarnason, Aðalmaður, Gunnar Þorgeirsson, Formaður, Helgi Kjartansson, Aðalmaður, Nanna Jónsdóttir, Aðalmaður, Halldóra Hjörleifsdóttir, Aðalmaður, Pétur Ingi Haraldsson, Skipulagsfulltrúi og Rúnar Guðmundsson, Byggingarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson, Skipulagsfulltrúi

Dagskrá: 

 

1.  

Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Útverk lnr. 166499: Nýr byggingarreitur: Fyrirspurn – 1706053

Lögð fram fyrirspurn Odds Carl Einarssonar dags. 15. júní 2017 um hvort að byggja megi gróðurskála/gróðurhús við bæinn Útverk í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Meðfylgjandi er afstöðumynd sem sýnir afmörkun byggingarreitar fyrir hús sem er 5×14 m og 7 m að hæð.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að gefið verði út byggingarleyfi í samræmi við umsókn með fyrirvara um að það sé utan þekkts flóðasvæðis sbr. gögn sem til eru hjá Veðurstofu Íslands. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
2.   Árnes: Skeiða- og Gnúpverjahreppur: Breyting á landnotkun: Aðalskipulagsbreyting – 1704045
Lögð fram að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga tillaga að breytingu á aðalskipulagi innan þéttbýlisins Árnes í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem fyrirhugað er að stækka íbúðarsvæði við enda Bugðugerðis, fella út leikskólalóð norðan Skólabrautar, stækka svæði fyrir verslun- og þjónustu (lóð Nónsteins) auk þess sem opið svæði til sérstakra nota minnkar. Tillagan var kynnt með auglýsingu sem birtist 15. júní sl. Engar athugasemdir eða ábendingar hafa borist.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki að auglýsa breytinguna skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga.
3.   Nónsteinn og Bugðugerði: Árnes: Stækkun lóðar og fjölgun: Deiliskipulagsbreyting – 1706022
Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir þéttbýlið Árnes til samræmis við breytingu á aðalskipulagi sem er í vinnslu. Í breytingunni felst m.a. að verslunar- og þjónustulóðin V3 (Nónsteinn) stækkar, gert er ráð fyrir 3 íbúða raðhúsi og parhúsi við enda Bugðugerðis og 4 íbúða raðhúsi við Skólabraut. Þá er nokkrar breytingar sem varða afmörkun lóða og vega til samræmis við nákvæmari mælingar.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki að auglýsa breytinguna samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins.
4.   Búrfellsvirkjun 166701: Ýmsar breytingar í ferli: Deiliskipulagsbreyting – 1609042
Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að breytingu á deiliskipulagi Búrfellsvirkjunar. Um er að ræða breytingar víða um virkjanasvæðið sem varða m.a. stærðir lóða og afmörkun vinnubúðasvæða, legu jarðstrengs, afmörkun og efnismagni náma og efnislosunarsvæða, legu vega innan svæðis, stærð byggingarreita, legu og gerð frárennslisskurðar o.fl. Þá er einnig afmörkuð lóð fyrir þjónustuhús (salerni) við Hjálparfoss. Tillagan var auglýst 4. maí með athugasemdafresti til 16. júní, engar athugasemdir bárust en fyrir liggja nýjar umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Minjastofnun og Umhverfisstofnun. Tillagan var einnig send Skógrækt ríkisins og Fiskistofu til umsagnar en ekki hefur borist bréf frá þeim.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki breytinguna óbreytta frá auglýstri tillögu og feli skipulagsfulltrúa að senda hana Skipulagsstofnun til afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.
5.   Búrfellsvirkjun 166701: Framkvæmd við háspennustreng: Fyrirspurn – 1706050
Lögð fram fyrirspurn Landsvirkjunar dags. 15. júní 2017 þar sem óskað er eftir heimild til að hefja framkvæmdir við háspennustreng skv. legu eins og hún er sýnd i breytingu á deiliskipulagi sem er í vinnslu. Óskað er eftir að litið verði á framkvæmdina sem óverulegt frávík frá gildandi skipulagi sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fram kemur að málið hafi verið kynnt fulltrúa Umhverfisstofnunar.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að veitt verði framkvæmdaleyfi í samræmi við umsögn enda sé um að ræða mjög óverulegt frávik frá gildandi deiliskipulagi og gert er ráð fyrir þessari legu í breytingu á skipulagi sem fengið hefur jákvæða umsögn Minjastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Minjastofnunar. Ekki er talið að framkvæmdin hafi áhrif á aðra hagsmunaaðila.
6.   Hjálparfoss: Vatnslagnir að salernishús: Framkvæmdaleyfi – 1706071
Lögð fram umsögn Skógræktarinnar dags. 20. júní 2017 um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu kaldavatnslagnar frá Búrfellsvirkjun undir botn Fossár að fyrirhuguðu salernishús við Hjálparfoss. Fyrir liggur heimild Fiskistofu dags. 2. nóvember 2016 fyrir framkvæmdinni, með ákveðnum skilyrðum, og gildir leyfið til nóvember 2017. Í tölvupósti dags. 19. júní 2017 kemur fram að fara þurfi í framkvæmdir áður en veiðitímabilið hefst í ágúst.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að framkvæmdaleyfi verði veitt í samræmi við umsókn með fyrirvara um að fyrir liggi skriflegt samþykki landeigenda og veiðifélags Fossár.
7.   Stöng og Gjáin í Þjórsárdal: Deiliskipulag – 1511004
Lögð fram að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga deliskipulag sem nær til Minjastaðarins Stangar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og til svæðis við Gjána sem er aðeins austar. Markmið með gerð deiliskipulagsins er að útbúa ramma yfir framkvæmdir sem nauðsynlegt er að fara í til að bæta aðstöðu vegna aukins álags ferðamanna. Tillagan var auglýst 4. maí sl. með athugasemdafrest til 16. júní. Tvær athugasemdir bárust auk þess sem fyrir liggja umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Umhverfisstofnun.
Afgreiðslu frestað þar til fyrir liggja viðbrögð umsækjenda við innkomnum athugasemdum og umsögnum.
 

8.  

Bláskógabyggð

Efri-Reykir 167080: Hótelbygging og baðlón: Fyrirspurn – 1610007

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir hótel og baðlón í landi Efri-Reykja við Brúará ásamt umhverfisskýrslu. Fyrir liggja umsagnir Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um tillöguna ásamt umsögn Skipulagsstofnunar um matslýsingu.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að deiliskipulagið verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ásamt meðfylgjandi umhverfisskýrslu.
9.   Hlöðuvellir lnr 168224: Nýr byggingarreitur: Deiliskipulagsbreyting – 1701069
Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi við Hlöðuvelli. Tillagan var samþykkt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga á fundi sveitarstjórnar 2. mars sl. með fyrirvara um umsagnir Forsætisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Minjastofnunar. Fyrir liggja umsagnir Forsætisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar en umsögn Minjastofnunar hefur ekki borist enn.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki breytinguna að nýju skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga óbreytta þrátt fyrir ábendingar Umhverfisstofnunar um mögulega færslu á hesthúsi. Ekki er talin þörf á að bíða eftir umsögn Minjastofnunar þar sem næstum þrír mánuðir eru liðnir síðan óskað var umsagnar um breytinguna.
10.   Veiðilundur og Stekkjarlundur: Frístundabyggð í landi Miðfells: Deiliskipulag: Kæra til ÚUA – 1706060
Lögð fram kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 12. júní 2017 vegna ákvörðunar um að samþykkja deiliskipulag fyrir Stekkjarlund úr landi Miðfells.
Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að senda upplýsingar um málsmeðferð deiliskipulagsins til úrskurðarnefndar.
11.   Haukadalur 4 lnr. 167101: Stækkun svæðis – 3 íbúðalóðir ásamt vegtengingu: Deiliskipulagsbreyting – 1703018
Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hótels Greysis og Geysisstofu. Í breytingunni felst að skipulagssvæðis stækkar til suðausturs yfir Beiná þar sem gert verður ráð fyrir 3 nýjum íbúðarhúsalóðum sem eru á bilinu 1,4 – 1,6 ha að stærð. Tillagan var auglýst 4. maí sl. með athugasemdafresti til 16. júní. Ein athugasemd barst auk þess sem fyrir liggur umsögn Minjastofnunar. Þá liggja fyrir viðbrögð skipulagsráðgjafa f.h. umsækjenda í tölvupósti dags. 20. júni 2017 ásamt fylgiskjölum.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki breytinguna óbreytta og feli skipulagsfulltrúa að senda hana til afgreiðslu Skipulagsstofnunar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Að mati nefndarinnar er tillagan í samræmi við gildandi aðalskipulag auk þess sem ekki liggja fyrir nein gögn sem sýna fram á að eignarhald landsins sé rangt skráð í þjóðskrá eins og haldið er fram í athugasemd.
12.   Hrísholt lnr. 167079: Spennistöð: Stofnun lóðar – 1706056
Lögð fram umsókn Ormars Þorgrímssonar dags.10. maí 2017 um stofnun 56 fm lóðar fyrir spennistöð úr landi Hrísholts lnr. 167079.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar og að byggð verði spennistöð á henni. Ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.
13.   Múli lnr. 167152: Spennistöð: Stofnun lóðar – 1706055
Lögð fram umsókn Múlaskógar ehf. dags. 16. júní 2017 um stofnun 56 fm lóðar undir spennistöð úr landi Múla lnr. 167152.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar og að byggð verði spennistöð á henni. Ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.
14.   Austurey I lnr. 167622: Breytt staðsetning smáhýsa: Deiliskipulagsbreyting – 1706052
Lögð fram umsókn Kjartans Lárussonar dags 16. júní 2017 um breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III sem felst í minniháttar tilfærslu á byggingarreit fyrir smáhýsi. Meðfylgjandi eru drög að uppdrætti sem sýnir nýja tillögu að staðsetningu og nýrri aðkomu. Skilmálar um fjölda og stærð húsa breytast ekki.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við breytinguna og er hún að mati nefndarinnar óveruleg. Er því mælt með að sveitarstjórn samþykki hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er ekki talin þörf á grenndarkynningu þar sem enginn hagsmunaaðili er nærri skipulagssvæðinu en umsækjandi sjálfur.
15.   Eyvindartunga: Frístundabyggð neðan Laugarvatnsvegar: Deiliskipulag – 1706048
Lögð fram umsókn Teits Eyjólfssonar dags. 15. júní 2017, f.h. landeigenda, um deiliskipulag svæðis úr landi Eyvindartungu sem liggur frá Laugarvatnsvegi að Laugarvatn, milli Litlár og Djúpár. Meðfylgjandi deiliskipulagstillaga dags. 15. júní 2017 sem sýnir afmörkun 61 frístundahúsalóða á um 70 ha svæði.
Að mati skipulagsnefndar eru byggingarreitir nokkurra lóða of nálægt Litluá og Djúpá, sbr. ákvæði 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð. Afgreiðslu frestað og skipulagsfulltrúa falið að ræða við umsækjendur um framhald málsins.
16.   Vatnsleysa land B lnr. 188581: Kriki: Breyting á heiti lóðar – 1706047
Lögð fram umsókn Hjartar Bergstað dags. 13. júlí 2017 um breytingu á heiti lóðarinnar Vatnsleysa land B. Óskað er eftir að lóðin fái heitið Kriki.
Að mati skipulagsnefndar er ekki æskilegt að stök frístundahús fái sérstök nöfn. Frekar ætti að miða við að útbúin verði götuheiti fyrir samliggjandi lóðir. Ekki er því mælt með að lóðin fái heitið Kriki nema þá að aðliggjandi lóðir fái sama nafn ásamt lóðanúmeri.
17.   Kjaransstaðir II lnr. 200839: Skipholt 3, 5 og 7: Sameining lóða – 1706043
Lögð fram umsókn Hafsteins Pálssonar dags. 6. júní 2017 um að lóðirnar Skipholt 3, 5 og 7 verði sameinaðar landinu Kjaransstöðum II á ný.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að lóðirnar verði felldar inn í upprunaland þeirra.
 

18.  

Grímsnes- og Grafningshreppur

Klausturhólar 2 lnr. 168966: Klausturhólar 2a og 2b: Stofnun lóða – 1705039

Lögð fram að nýju umsókn Björgvins Magnússonar dags. 10. maí 2017 um skiptingu lóðarinnar Klausturhólar 2 lnr. 168966 í þrjá hluta. Nú er lagt fram lagfært lóðablað sem sýnir m.a. aðkomu að landinu auk þess sem fyrir liggur samþykki allra eigenda aðliggjandi lands. Landið er í dag 4,78 ha skv. mælingu og verða lóðirnar þrjár á bilinu 1,18 – 1,80 ha að stærð.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við skiptingu lóðarinnar en bendir á að ekki verður hægt að sækja um byggingarleyfi á nýjum lóðum nema á grundvelli deiliskipulags fyrir svæðið. Ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.
19.   Fljótsbakki 5 lnr. 179265 og Fljótsbakki 6 lnr. 179266: Breyting á lóðamörkum – 1706044
Lögð fram umsókn eigenda lóðanna Fljótsbakki 5 og 6 úr landi Ásgarðs um breytingu á lóðarmörkum milli lóðanna til samræmis við meðfylgjandi lóðablað.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við breytingu á lóðarmörkum i samræmi við fyrirliggjandi gögn.
20.   Nesjar lnr. 170892 (Hestvíkurvegur nr.4): Breyting á stærð lóðar – 1706049
Lögð fram umsókn eigenda lóðarinnar Nesjar lnr. 170892 dags. 15. júní 2017 um breytingu á skráningu lóðarinnar. Er lóðin skráð 2.500 fm en verður skv. nýju lóðablaði 13.492 fm auk þess sem hún fær heitið Hestvíkurvegur 4.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við breytta afmörkun lóðarinnar, með fyrirvara um samþykki eigenda og lóðarhafa aðliggjandi lóða á hnitsetningu landamarka.
21.   Kerið í Grímsnesi: Deiliskipulag – 1512043
Lögð fram drög að tillögu að deiliskipulagi fyrir Kerið ásamt lóðablaði sem sýnir afmörkun landsins. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að stækka núverandi bílastæði í átt að þjóðvegi auk þess sem afmarkaðir eru tveir byggingarreitur fyrir starfsmannaaðstöðu, salerni og þjónustuhús. Samkvæmt fyrirliggjandi lóðablaði er land Kersins 23.84 ha.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu málsins og felur skipulagsfulltrúa að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar um fyrirliggjandi tillögu.
22.   Nesjavellir 209139: Aukið byggingarmagn hótels: Deiliskipulag – 1607005
Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að deiliskipulagi sem nær til lóðar ION hótels á Nesjavöllum með lnr. 209139. Fyrirhugað er að byggja við núverandi hótel og bæta við um 22 herbergjum þannig að þau verði um 64 talsins. Núverandi hótel er um 2.300 fm að stærð en með deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að heildarbyggingarmagn verði allt að 3.830 fm. Tillagan var auglýst 23. mars 2017 með athugasemdafresti til 5. maí. Engar athugasemdir bárust en fyrir liggja umsagnir Minjastofnunar, Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Skipulagsstofnunar. Óskað var eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar að ósk Skipulagsstofnunar en hún hefur þó ekki borist enn.
Að mati skipulagsnefndar er ekki tækt að bíða lengur eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar þar sem óskað var eftir umsögn 29. mars sl. Mælir skipulagsnefnd því með að sveitarstjórn samþykki deiliskipulagið óbreytt frá auglýstri tillögu og feli skipulagsfulltrúa að senda málið til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.
 

23.  

Flóahreppur

Vatnsendi: Alifuglabú: Deiliskipulag – 1508012

Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 1. júní 2017, móttekið 15. júní, varðandi deiliskipulag alifuglabús í landi Vatnsenda þar sem gerðar eru nokkrar athugasemdir við tillöguna. Þá er jafnframt lagt fram bréf umsækjenda dags. 20. júní 2017 þar sem fram koma viðbrögð við athugasemdum Skipulagsstofnunar.
Að mati skipulagsnefndar er öllum athugasemdum Skipulagsstofnunar svarað í ofangreindu bréfi umsækjenda. Mælir nefndin með að sveitarstjórn geri rökstuðning þess að sínum og óski eftir að Skipulagsstofnun taki deiliskipulagið til afgreiðslu að nýju.
24.   Sæholt: Dalbær: Deiliskipulag – 1706045
Lögð fram umsókn Sigurðar U. Sigurðssonar dags. 14. júní 2017, f.h. landeigenda Dalbæjar lnr. 165468, um deiliskipulag nýs lögbýlis á 25,4 ha svæði. Gert er ráð fyrir að lögbýlið fá heitið Sæholt. Fram kemur að hámarksbyggingarmagn innan afmarkaðs byggingarreitar sé 5.000 fm .
Þar sem ekki er gerð ráð fyrir nýju lögbýli á þessum stað í gildandi deiliskipulagi telur skipulagsnefnd að fyrst þurfi að kynna lýsingu deiliskipulags skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Er mælt með að sveitarstjórn samþykki að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu byggt á fyrirliggjandi gögnum og í kjölfarið kynna deiliskipulagstillögu í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Leita þarf umsagnar Vegagerðarinnar, Minjastofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
25.   Dalbær lnr. 165468: Sæholt: Stofnun lóðar – 1706046
Lögð fram umsókn Sigurðar U. Sigurðssonar dags. 14. júní 2017, f.h. landeigenda Dalbæjar lnr. 165468, um stofnun 25.4 ha spildu úr Dalbæ. Gert er ráð fyrir að stofnað verði lögbýli á landinu.
Ekki er gerð athugasemd við stofnun landsins með fyrirvara um samþykki Vegagerðarinnar á aðkomu að landinu. Þá er ekki gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga. Er þetta með fyrirvara um að hnit séu í samræmi við nýsamþykktan uppdrátt af landi Dalbæjar.
26.   Ásahraun lnr. 178801: Gistihús fyrir ferðamenn: Fyrirspurn/grenndarkynning – 1702030
Lagður fram tölvupóstur Guðna Torfa Áskelssonar dags. 7. júní 2017 þar sem óskað er eftir heimild til að byggja 1 gestahús í viðbót á landinu Ásahraun lnr. 178801. Áður hafði verið samþykkt, á grundvelli grenndarkynningar, að byggja 1 hús.
Að mati skipulagsnefndar hafa forsendur frá fyrri afgreiðslu nefndarinnar ekki breyst og hafnar því erindinu.
 

27.  

Hrunamannahreppur

Unnarholtskot 1 lnr. 166837: Unnarholtskot 1B: Stofnun lóðar – 1706051

Lögð fram umsókn Eflu ehf. dags. 14. júní 2017, f.h. eigenda Unnarholtskots 1 lnr. 166837, um stofnun 1.759 fm lóðar sem fengi heitið Unnarholtskot 1B.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar og ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga. Er þetta með fyrirvara um að hnit lóðar séu í samræmi hnit aðliggjandi lóðar.
28.   Jaðar 1 166785: Frístundahúsalóð: Deiliskipulag – 1703059
Lögð fram að lokinni kynningu skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga tillaga að Lö deiliskipulagi fyrir 3,2 ha lóð í landi Jaðars í Hrunamannahreppi þar sem fyrirhugað er að reisa frístundahús sem getur verið allt að 70 fm að grunnfleti ásamt allt að 25 fm gestahúsi gestahúsi og 10 fm geymslu. Skipulagssvæðið er um 1,5 km austan við Gullfoss, framan við Hádegishæðir. Aðkoma að lóðinni verður um afréttarveg sem tekur við af Tungufellsvegi nr. 349. Tillagan var kynnt með auglýsingu sem birtist 15. júní 2017.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
29.   Gata lnr. 166750: Spennistöð: Stofnun lóðar – 1706054
Lögð fram umsókn Reykás ehf. dags. 16. júni 2017 um stofnun 27 fm lóðar fyrir spennistöð úr landi Götu lnr. 166750.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar en forsenda stofnunarinnar er að gerð verði breyting á gildandi deiliskipulagi svæðisins. Að mati nefndarinnar er slík breyting óveruleg og mælir með sveitarstjórn samþykki hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu.
30.   Jaðar 1 166785: Nýgræði: Stofnun lóðar – 1706041
Lögð fram umsókn Guðna Guðbergssonar dags. 7. júní 2017, f.h. landeigenda, um stofnun 3,2 ha lóðar úr landi Jaðars lnr. 166785. Lóðin er í samræmi við deiliskipulag sem er í vinnslu fyrir svæðið.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar og ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga. Vinna þarf lóðablað í samræmi við leiðbeiningar skipulagsfulltrúa.
31.   Öll sveitarfélög

Leiðbeiningar fyrir sveitarfélög við afmörkun lóða orku- og veitufyrirtækja innan þjóðlendna – 1706042

Lögð fram til kynningar drög að leiðarvísi fyrir sveitarfélög við afmörkun lóða fyrir orku- og veitufyrirtæki. Hefur leiðarvísirinn verið unnin af sambandi íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við forsætisráðuneytið auk þess sem fulltrúar frá Samtökum orkusveitarfélaga, Þjóðskrá og Skipulagsstofnun hafa komið að vinnunni.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi drög að leiðarvísi og mælir með að farið verði í að útbúa lóðablöð fyrir virkjanir innan svæðisins í samræmi við þau.
32.   Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 17 – 56 – 1706001F
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa dags. 7. júni 2017.

 

 

 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:30

 

 

___________________________                       ___________________________

 

 

 

 

___________________________                       ___________________________

 

 

 

___________________________                       ___________________________

 

 

 

 

___________________________                       ___________________________