Skipulagsnefnd fundur nr. 106 – 10. mars 2016

Skipulagsnefnd – 106. fundur  

haldinn Laugarvatn, 10. mars 2016

og hófst hann kl. 09:30

 

Fundinn sátu:

Árni Eiríksson Aðalmaður, Björgvin Skafti Bjarnason Aðalmaður, Gunnar Þorgeirsson Formaður, Nanna Jónsdóttir Aðalmaður, Ragnar Magnússon Varaformaður, Rúnar Guðmundsson Byggingarfulltrúi, Valgerður Sævarsdóttir Varamaður og Pétur Ingi Haraldsson .

 

Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson, Skipulagsfulltrúi

 

Dagskrá:

 

1.   Villingavatn 170831: Þverás 1: Stofnun lóðar – 1511009
Lagt fram bréf Áslaugar Briem og Tómasar Jónssonar dags. 22. febrúar 2016 þar sem óskað er eftir endurupptöku á ákvörðun skipulagsnefndar frá 11. febrúar s.l. um að gera ekki athugasemd við stofnun nýrrar 24.400 fm lóðar úr landi Villingavatns 170831, Þverás 1.
Skipulagsnefnd samþykkir að fresta því að stofna lóðina þar til fyrir liggja viðbrögð umsækjenda um stofnun lóðarinnar við ofangreindu bréfi.
 
2.   Neðan-Sogsvegar 45 lnr. 169336: Norðurkot: Skipting lóðar: Deiliskipulagsbreyting – 1603005
Á fundi skipulagsnefndar 29. september 2014 var tekið fyrir erindi eigenda lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 45 lnr. 169336 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Var þá samþykkt að skipta lóðinni í tvo hluta, afmarka byggingarreiti og gera ráð fyrir aðkomu að aðliggjandi lóð. Málið fór síðan í bið en nú hefur verið unnin tillaga byggt á afgreiðslu nefndarinnar með ósk um samþykki.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við fyrirliggjandi gögn.
 
3.   Ásabraut 26 lnr. 194480 og 28 lnr. 208485: Ásgarður: Deiliskipulagsbreyting – 1603007
Lögð fram umsókn eigenda Ásabrautar 26 og 28 í landi Ásgarðs þar sem óskað er eftir breytingu á innbyrðis lóðarmörkum lóðanna.
Þar sem í vinnslu er vinna við endurskoðun deiliskipulags hverfisins í heild er ekki samþykkt að svo stöddu að fara í ofangreindar breytingar. Lóðarhöfum er bent á að hafa samband við stjórn sumarhúsafélagsins varðandi framhald málsins.
 
4.   Nesjar 170902 (Réttarháls 1): Staðfesting á afmörkun og breyting á stærð lóðar – 1603010
Lögð fram breiðni eigenda og umráðenda lóðarinnar Nesjar 170902 (Réttarháls 1) dags. 20. janúar 2016 um breytta afmörkun og stærð lóðarinnar til samræmis við meðfylgjandi lóðablað. Lóðin er í dag skráð 1.200 fm en verður 3.660 fm eftir breytingu. Fyrir liggur samþykki aðliggjandi lóðarhafa á hnitsetningu lóðarmarka.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við breytingu á afmörkun og stærð ofangreindrar lóðar með fyrirvara um samþykki skráðra eigenda/umráðenda.
 
5.   Hæðarendi 168254: Náttúrulaug og aðstaða fyrir baðgesti: Fyrirspurn – 1602041
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi á jörðinni Hæðarenda sem nær til svæðis umhverfis núverandi fjárhús, vestan við bæjartorfu jarðarinnar. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að baðlóni og breyta notkun núverandi fjárhúsa í þjónustubyggingu.
Skipulagsnefnd mælir með að deiliskipulagið verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 
6.   Lindarbær 1C: Austurtún: Deiliskipulag – 1505014
Á fundi skipulagsnefndar þann 10. september 2015 var afgreiðslu deiliskipulags fyrir Lindarbæ 1c frestað og skipulagsfulltrúa falið að kynna tillögu að nýjum aðkomuvegi fyrir eigendum aðliggjandi lands. Var það gert með bréfi dags. 5. október og síðan þá hafa verið í gangi samskipti um hnitsetningu gagna og útfærslu á aðkomuvegi og stærð nauðsynlegs vegsvæðis.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu málsins þar til fyrir liggur skriflegt samþykki landeigenda um vegtenginu að landinu.
 
7.   Höfðaflatir í Úthlíð: Malarnáma: Framkvæmdaleyfi – 1509053
Lögð fram að nýju umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir námu við Höfðaflatir í sameignarlandi Úthlíðar, Stekkholts og Hrauntúns. Náman er á 2,4 ha svæði og er ráðgert að vinna allt að 30.000 m3. Fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar dags. 26. febrúar 2016 varðandi ákvörðun um matsskyldu en niðurstaða stofnunarinnar var að ekki var talið að fyrirhuguð efnistaka sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir efnistökunni í samræmi við fyrirliggjandi umsögn þegar fyrir liggur undirrituð umsókn allra landeigenda.
 
8.   Lindarbraut 3: Laugarvatn: Nýtingarhlutfall: Deiliskipulagsbreyting – 1603009
Lögð fram umsókn Róberts Arons Pálmasonar dags. 3. mars 2016 um breytingu á skilmálum lóðarinnar Lindarbraut 3 þannig að byggja megi allt að 260 fm hús á einni hæð á lóðinni. Gildandi skilmálar gera ráð fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0.20 en teikningar að nýju húsi fela í sér að nýtingarhlutfall verði um 0.23. Miðað við
Að mati skipulagsnefndar er um svo óveruleg frávík að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Í ljósi þessa gerir nefndin ekki athugasemd við að gefið verði út byggingarleyfi fyrir 260 fm húsi á einni hæð.
 
9.   Einiholt 1 lnr. 167081: 3 nýjar lóðir: Stofnun lóða – 1512037
Lögð fram að nýjum umsókn eiganda Einiholts 1 lnr. 167081 um stofnun þriggja lóða úr jörðinni í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt. Um er að ræða 720 fm lóð utan um fjós á bæjartorfunni, 10,9 ha spildu sem kallast Dyngjubakki og 3,9 ha spilda sem kallast Dyngja.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við stofnun lóðanna með fyrirvara um að ekki verði gert ráð fyrir hnitsetningu Einiholtslækjar og með fyrirvara um samþykki aðliggjandi landeigenda á hnitsetningu landamarka. Ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.
 
10.   Hvannalundur 8: Úrskurður UUA – 1505031
Með úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. apríl 2015 var byggingarleyfi fyrir stækkun sumarhúss á lóðinni Hvannalundur 8 í landi Miðfells sem samþykkt var 13. september 2011 fellt úr gildi. Í kjölfarið óskuðu eigendur Hvannalundar 10, sem kærðu málið, eftir því að húsið yrði fjarlægt frá lóðarmörkum, sbr. t-póstur dags. 25. maí og 13. júní 2015. Leitað hefur verið eftir viðbrögðum eigenda Hvannalundar 8 og liggja þau fyrir í bréfi 12. febrúar 2016.
Skipulagsnefnd fellst ekki á að efnisrök eða hagsmunir séu fyrir því að fjarlægja húsið frá lóðarmörkum. Vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins stendur nú yfir og er fyrirhugað að þeirri vinnu ljúki á haustmánuðum. Afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er því frestað til 1. október 2016. Þá gerir skipulagsnefnd alvarlegar athugasemdir við málshraða Úrskurðarnefndar þar sem niðurstaða á að liggja fyrir innan 6 mánaða. Fjögur ár eru liðin frá því að málið var kært og því telur nefndin ekki hægt að taka mark á niðurstöðu úrskurðarnefndar.
 
11.   Borgarhólsstekkur 1: Umsókn um byggingarleyfi: Gestahús – 1501075
Með úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. september 2014 var byggingarleyfi fyrir byggingu 25,8 fm gestahúss á lóðinni Borgarhólsstekkur 1 í landi Miðfells sem samþykkt var 12. júlí 2007 fellt úr gildi. Í kjölfarið óskuðu kærendur eftir því að húsið yrði fjarlægt, sbr. t-póstur frá 11. júní 2015. Leitað hefur verið eftir viðbrögðum eigenda Borgarhólsstekks 1 og liggja þau fyrir í bréfi 18. febrúar og 22. febrúar 2016.
Skipulagsnefnd fellst ekki á að efnisrök eða hagsmunir séu fyrir fjarlægingu gestahússins. Þá er byggingin í samræmi við það sem almennt hefur tíðkast að veita leyfi fyrir í sumarhúsahverfum í sveitarfélaginu. Vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins stendur nú yfir og er fyrirhugað að þeirri vinnu ljúki á haustmánuðum. Afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er því frestað til 1. október 2016.
 
12.   Hamarsvegur 2: Umsókn um byggingarleyfi: Sumarhús – 1603011
Lögð fram umsókn eigenda Hamarsvegar 2 úr landi Iðu um leyfi til að byggja 15 fm sumarhús á lóðinni.
Skipulagsnefnd samþykkir að grenndarkynna umsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Ef engar athugasemdir berast er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
 
13.   Holtabyggð 110: Syðra-Langholt IV: Deiliskipulagsbreyting – 1603008
Lögð fram umsókn eigenda Holtabyggðar 110 úr landi Syðra-Langholts IV um breytingu á deiliskipulagi sem felst í minniháttar tilfærslu á byggingarreitum lóðarinnar.
Að mati skipulagsnefndar er um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða og mælir með að sveitarstjórn samþykki hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu.
 
14.   Stóra-Ármót 166274: Umsókn um byggingarleyfi: Gripahús – 1603012
Lögð fram umsókn Stóra Ármóts ehf. dags. 4. mars 2016 um leyfi til að byggja 500 fm gripahús. Meðfylgjandi er uppdráttur sem sýnir tvær tillögur að staðsetningu hússins, A og B. ATH Utan þéttbýlis skal ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Aðrar byggingar skal ekki staðsetja nær stofn- og tengivegum og öðrum þjóðvegum og almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Heimilt er að víkja frá þessum ákvæðum þegar um er að ræða verslunar- og þjónustubyggingar en gæta skal ákvæða vegalaga um veghelgunarsvæði.
Skipulagsnefnd bendir á að skv. ákvæðum skipulagsreglugerðar þarf gripahús að vera í a.m.k. 50 m fjarlægð frá þjóðveginum og er byggingarreitur B því of nálægt vegi. Nefndin gerir þó ekki athugasemd við að byggingu 500 fm gripahúss á jörðinni miðað við þessa tvo valkosti, með fyrirvara um fjarlægð frá vegi og umsögn Vegagerðarinnar varðandi tengingu við veginn. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu.
 
15.   Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 16-25 – 1603001F
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 2. mars 2016.
 

 

 

 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10.30