Skipulagsnefnd fundur nr. 165 – 31. október 2018

Skipulagsnefnd – 165. fundur Skipulagsnefndar

haldinn að Laugarvatni, 31. október 2018

og hófst hann kl. 09:30

Fundinn sátu:

Árni Eiríksson, Björgvin Skafti Bjarnason, Helgi Kjartansson, Halldóra Hjörleifsdóttir, Ingibjörg Harðardóttir, Guðmundur J. Gíslason og Rúnar Guðmundsson.

Fundargerð ritaði:  Elísabet Dröfn Erlingsdóttir, aðstoðarmaður skipulagsfulltrúa.

 

Dagskrá:

 

 

1.

Ásahreppur:

Hellatún lóð H (L201672); Umsókn um byggingarleyfi; Íbúðarhús – 1810023

Lögð er fram umsókn Ægis Guðmundssonar dags. 09.10.2018, móttekin sama dag, um byggingarleyfi til að byggja íbúðarhús 151,1 m2 á lóðinni Hellatún lóð H (L201672) í Ásahreppi.
Með vísan í bókun sveitarstjórnar Ásahrepps á fundi þ. 12. september 2018, mál nr. 2 í fundarlið 1.1, þá leggur skipulagsnefnd til að byggingarfulltrúa verði falið að gefa út takmarkað byggingarleyfi sem felur í sér gröft fyrir húsi og fyllingu undir undirstöður.
2. Kálfholt (L165294); Umsókn um byggingarleyfi; Véla- og verkfærageymsla mhl 04 – breyting – 1810031
Lögð er fram umsókn Ísleifs Jónssonar dags. 20.09.2018, móttekin 11.10.2108, um byggingarleyfi til að breyta mhl 04 véla/verkfærageymslu í íbúðarhúsnæði á jörðinni Kálfholt (L165294) í Ásahreppi.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að húsnæðinu sé breytt í íbúðarhúsnæði. Fyrir liggur jákvæð umsögn Brunavarna Rangárvallasýslu. Skipulagsnefnd felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir mhl 04.
3.  Húsar 1 land L165334; Sumarbústaðarland í landbúnaðarland; Breytt skráning lóðar – 1810046
Gunnar Helgason og Björk Jakobsdóttir leggja fram umsókn um breytingu á skráningu landeignarinnar Húsar 1 land L165334. Umrætt land er skráð 26.3 ha að stærð og er skráð sem sumarbústaðaland í Þjóðskrá íslands.
Sótt er um að landið verði skráð sem landbúnaðarland í Þjóðskrá Íslands. Landið er í gildandi aðalskipulagi Ásahrepps skilgreint sem landbúnaðarland. Einnig er sótt um að innan landspildunnar verði gerð 700 m2 lóð undir sumarhús sem er á landinu.
Skipulagsnefnd mælir með að hreppsnefnd Ásahrepps samþykki að skráningu á landnotkun verði breytt til samræmis við gildandi aðalskipulag Ásahrepps 2010-2022. Einnig er samþykkt að stofnuð verði lóð utan um núverandi sumarbústað á landspildunni og ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga. Skipulagsnefnd mælist til að við vinnu vegna endurskoðunar á gildandi aðalskipulagi Ásahrepps, sem fer að hefjast, verði sérstaklega skoðað að fella út á svæðinu frístundasvæði sem hefur merkinguna F4 og nær til landnúmera 165334, 165337 og 165292.
 

4.

 Bláskógabyggð:

Brúnir 5 (L227336); Umsókn um byggingarleyfi; Sumarhús – 1810030

Lögð er fram umsókn Guðborgar Hildar Kolbeinsdóttur dags. 18.09.2018, móttekin 24.09.2018, um byggingarleyfi til að flytja sumarhús 90 m2 á sumarhúsalóðina Brúnir 5 (L227336) í Bláskógabyggð.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi fyrir umræddu húsi með fyrirvara um grenndarkynningu.
 5.  Efri-Reykir 167080: Hótelbygging og baðlón: Deiliskipulag – 1610007
Lögð fyrir að nýju umhverfisskýrsla og deiliskipulag verslunar- og þjónustusvæðis fyrir hótel og baðlón á spildu í landi Efri-Reykja L167080 í Bláskógabyggð. Tillögu og umhverfisskýrslu hefur verið breytt til samræmis við framkomnar umsagnir og ábendingar umsagnaraðila.
Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykki deiliskipulagstillögu og umhverfisskýrslu og að tillagan ásamt umhverfisskýrslu verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þó með fyrirvara um niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskyldu og hugsanlegs mats á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000.
6.  Reykholt: Bláskógabyggð: Endurskoðun deiliskipulags – 1702042
Bláskógabyggð vinnur að gerð deiliskipulags fyrir nær allt þéttbýlið Reykholt í Biskupstungum. Deiliskipulagið mun í megindráttum festa í sessi núverandi landnotkun á svæðinu. Gert er ráð fyrir þéttingu byggðar þar sem því verður við komið og að byggð sé í góðum tengslum við skóla, íþróttasvæði og verslun og þjónustu. Þá verður gert ráð fyrir nýju íbúðarsvæði á Birtingarholti og nýrri íbúðargötu sunnan við Kistuholt, en mikil þörf er á íbúðarlóðum í Reykholti. Skipulagssvæðið er um 144 ha að stærð.
Deiliskipulagið er í samræmi við aðalskipulag Bláskógabyggðar 2015-2027.Markmið
Helstu markmið með deiliskipulaginu eru eftirfarandi:
Að Reykholt verði áfram áhugaverður kostur fyrir búsetu og atvinnuuppbyggingu.
Að skipulagðar verði fjölbreyttar íbúðarlóðir sem nýtast til uppbyggingar næstu árin. Gert verður ráð fyrir fjölbreyttum stærðum íbúða og að íbúðarsvæði séu í góðum tengslum við skóla, íþróttasvæði og verslun- og þjónustu.
Að skapa möguleika á þróun og vexti núverandi og nýrrar landbúnaðar-, þjónustu-, iðnaðar- og athafnastarfsemi.
Tryggja gott aðgengi gangandi og hjólandi að skólasvæðinu og almenna útivistarmöguleika fyrir íbúa og gesti.
Að bæta öryggi vegfarenda með endurskoðun á umferðarflæði og bílastæðum.
Að allar lóðir verði hnitsettar og settir skilmálar fyrir þær.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykki nýtt endurskoðað deiliskipulag í Reykholti og mælir með að deiliskipulagstillagan og greinargerð verði kynnt skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 

7.

Flóahreppur:

Stóru-Reykir land L198527: Byggðarholt: Breyting á heiti lóðar – 1808047

Lögð fram að nýju umsókn Antoníusar Þ. Svavarssonar þar sem óskað er eftir að fá að breyta heiti lóðarinnar Stóru-Reykir land, L198527, í Byggðarholt. Málinu var frestað á fundi skipulagsnefndar þ. 13.09.2018 og skipulagsfulltrúa falið að óska eftir rökstuðningi fyrir heiti lóðarinnar. Fyrir liggur rökstuðningur umsækjanda í bréfi sem barst þ. 12.10.2018.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að landeignin fái heitið Byggðarholt.
8.  Brú á Loftsstaðaá; Villingaholtsvegur (305); Endurnýjun brúar; Framkvæmdaleyfi – 1810049
Vegagerðin óskar eftir framkvæmdaleyfi til smíði nýrrar brúar yfir Loftsstaðaá í Flóahreppi. Ný brú verður tvíbreið (heildarbreidd 10m), slakbent steinsteypubrú í einu 6 m hafi. Ekki er áformað að breyta vegi vegna framkvæmda enda er hann fullbyggður beggjavegna brúar.
Fyrir liggja jákvæðar umsagnir frá Hafrannsóknarstofnun og Fiskistofu.
Skipulagsnefnd samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi vegna smíði nýrrar brúar yfir Loftsstaðaá í Flóahreppi.
9.  Ísólfsskáli L218283; Ísólfsskáli 2; Breytt heiti lóðar – 1810043
Lögð fram umsókn Ingjalds Ásmundarsonar, dags. 14.09.2018, um breytingu á heiti landeignarinnar Ísólfsskáli, L218283, í heitið Ísólfsskáli 2. Samhliða liggur fyrir umsókn eigenda landeignarinnar Ferjuness 2 land 2 lóð 2 um breytingu á heiti landsins í heitið Ísólfsskáli.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að landeignin Ísólfsskáli fái heitið Ísólfsskáli 2
 10.  Ferjunes 2 land 2 lóð 2 L220973; Ísólfsskáli; Breytt heiti lóðar – 1810042
Lögð fram umsókn Oddnýjar Á. Ingjaldsdóttur og Jakobs N. Kristjánssonar, dags. 14.09.2018, um breytingu á heiti landeignarinnar Ferjunes 2 land 2 lóð 2, L220973, í heitið Ísólfsskáli. Samhliða liggur fyrir umsókn eiganda landeignarinnar Ísólfsskáli um breytingu á heiti landsins í Ísólfsskáli 2.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að landeignin Ferjunes 2 land 2 lóð 2 fái heitið Ísólfsskáli.
 

11.

 Grímsnes- og Grafningshreppur:

Bjarkarbraut 26 (L169174); Umsókn um byggingarleyfi; Sumarhús – viðbygging – 1810021

Lögð er fram umsókn Þrastar Sverrissonar og Heiðu Bjarkar Sturludóttur dags. 27.09.2018, móttekin 05.10.2018, um byggingarleyfi til að byggja við sumarhús á lóðinni Bjarkarbraut 26 (L169174) í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Heildarstærð sumarhúss eftir stækkun verður 97 m2.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á Bjarkarbraut 26 með fyrirvara um grenndarkynningu.
12.  Minni-Bær land (L169227); Umsókn um byggingarleyfi; Sumarhús – 1810033
Lögð er fram umsókn Jónínu Haraldsdóttur dags. 10.10.2018, móttekin sama dag, um byggingarleyfi til að flytja sumarhús 71,2 m2 á lóðina Minni-Bær land (L169227) í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi fyrir sumarhúsinu að Minni-Bæ L169227. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu. Breyta þarf skráningu landsins í Þjóðskrá úr ræktunarland í sumarbústaðaland skv. gildandi aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps.
 

13.

 Hrunamannahreppur:

Berghylur lnr 166724: Fjölgun byggingarreita og nýjar lóðir: Deiliskipulag – 1803053

Lögð fram að nýju deiliskipulagstillaga fyrir bæjartorfu Berghyls í Hrunamannahreppi. Samkvæmt fyrri tillögu sem hefur verið auglýst var gert ráð fyrir lóðum undir 4 smáhýsi, einni íbúðarhúsalóð, lóð fyrir gripahús og lóð fyrir vélaskemmu. Samkvæmt lagfærðri tillögu er gert ráð fyrir allt að 4 húsum til gistingar hvert allt að 98 m2 að stærð auk lóða undir íbúðarhús, vélageymslu og gripahús.
Skipulagnefnd mælist til að sveitarstjórn samþykki breytta deiliskipulagstillögu og að tillagan verði auglýst að nýju skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 14.  Hrafnkelsstaðir 3 (L166764); Umsókn um byggingarleyfi; Skemma – 1810024
Lögð er fram umsókn Aðalsteins Þorgeirssonar dags. 6.10.2018, móttekin 09.10.2018, um leyfi til að fjarlægja geymslu 90 m2 byggingarár 1950 og endurbyggja/stækka skemmu 216,3 m2 á jörðinni Hrafnkelsstaðir 3 (L166764) í Hrunamannahreppi.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi fyrir nýrri skemmu, með fyrirvara um grenndarkynningu.
15. Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 18 – 88 – 1810003F
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 17. október 2018.

 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:00

 

Árni Eiríksson    Björgvin Skafti Bjarnason
 Helgi Kjartansson    Halldóra Hjörleifsdóttir
 Ingibjörg Harðardóttir    Guðmundur J. Gíslason