Fasteignamat allra mannvirkja á landinu er uppfært árlega af Þjóðskrá Íslands, (áður Fasteignamati ríkisins). Fasteignamatinu er ætlað að endurspegla markaðsvirði fasteigna enda tekur Þjóðskrá Íslands mið af markaðsvirði sambærilegra fasteigna á sama markaðssvæði við ákvörðun sína. Þjóðskrá tilkynnir fasteignaeigendum um fyrirhugað mat næsta árs í júní á hverju ári, þó það taki síðan ekki gildi fyrr en næstkomandi áramót.
Sveitarstjórn hvers og eins sveitarfélags nýtir fasteignamat Þjóðskrár við ákvörðun sína um álagningu fasteignagjalda hjá sínu sveitarfélagi en fasteignagjöld er ákveðið hlutfall (prósenta) af fasteignamatinu. Sveitarstjórn ákvarðar hlutfallstölu fasteignagjalda næstkomandi árs í tengslum við fjárhagsáætlanagerð næsta árs á hverju hausti en er þó bundið af rammanum sem lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 setur þeim. Samkvæmt lögunum eru fasteignir flokkaðar í þrjá flokka, A, B og C, þar sem þak er sett á hlutfallið sem innheimta má af fasteignamati.
Hér fyrir neðan eru krækjur inn á vefsíður aðildarsveitarfélaga UTU bs. þar sem finna má upplýsingar um álagningu fasteignagjalda hvers og eins sveitarfélags. Á heimasíðum sveitarfélaganna má jafnframt finna gjaldskrár þjónustugjalda vegna þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin veita.
Mikilvægt er að eigendur gangi úr skugga um að upplýsingar um fasteignir þeirra séu rétt skráðar. Ef upplýsingarnar eru ekki réttar skal koma athugasemdum á framfæri við byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita bs. sér um skráningu fasteigna fyrir ofangreind sveitarfélög. Fasteignaeigendur þessara sveitarfélaga geta komið leiðréttingum eða ábendingum á framfæri með því að hringja í síma 480-5550 eða sent tölvupóst á netfangið utu@utu.is