07 apr Auglýsing sem birtist 9. apríl 2015
Aðalskipulagsmál
Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt niðurstaða sveitarstjórnar varðandi eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu:
1. Breyting á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 á spildu úr landi Klausturhóla við Biskupstungnabraut. Svæði fyrir verslun- og þjónustu í stað frístundabyggðar.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi 18. febrúar 2015 tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem felst í að landnotkun á um 20 ha spildu úr landi Klausturhóla við Biskupstungnabraut breytist úr svæði fyrir frístundabyggð í svæði fyrir verslun og þjónustu. Tillagan var auglýst samhliða breytingu á deiliskipulagi svæðisins 21. ágúst 2014 með athugasemdafresti til 3. október. Athugasemdir gáfu ekki tilefni til breytinga á tillögunni og hefur hún verið send Skipulagsstofnun til staðfestingar.
Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt lýsing fyrir eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu:
2. Breyting á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 á spildu úr landi Einiholts, Bláskógabyggð. Verslun- og þjónusta í stað landbúnaðarsvæðis/efnistökusvæði. (Skipulagslýsing)
Lögð fram til kynningar skipulagslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi í Bláskógabyggð sem felst í að gert er ráð fyrir svæði fyrir verslun- og þjónustu á spildu úr landi Einiholts á svæði milli Einiholtslækjar og þjóðvegar, sunnan við bæjartorfu Einiholts. Fyrirhugað er að byggja upp gistiþjónustu fyrir ferðamenn.
Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér auglýstar tillögur að eftirfarandi aðalskipulagsbreytingum:
3. Breyting á aðalskipulagi Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2003-2015 vegna stækkunar á iðnaðarsvæði norðan Flúða, svæði merkt P1. (Uppdráttur)
Auglýst er tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem varðar iðnaðarsvæði norðan Flúða sem nýtt hefur verið til móttöku úrgangs (gámastöð), merkt P1. Er breytingin gerð í tengslum við nýtt deiliskipulag fyrir svæðið og fyrirætlanir um að bæta við starfsemi sem tengist meðhöndlun á lífrænun úrgangi og er gert ráð fyrir að svæðið stækki úr um 0,7 ha í 3 ha. Tillaga að deiliskipulagi svæðisins er auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingunni.
4. Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012, Bláskógabyggð, innan þéttbýlisins Reykholt. Nýr vegur að íbúðarsvæði austan grunnskóla (land Eflingar). (Uppdráttur)
Auglýst er tillaga að breytingu á aðalskipulagi innan Reykholts sem felst í að gert er ráð fyrir nýrri aðkomu að íbúðarsvæði (svæði Eflingar) upp á holtinu austan við grunnskólann. Fyrirhugað er að leggja nýjan um 220 m langan veg frá Kistuholti sunnan Aratungu, framhjá skólastjórabústað og þaðan upp á holtið. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðisins er auglýst samhliða.
Deiliskipulagsmál
Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt niðurstaða sveitarstjórnar varðandi eftirfarandi deiliskipulagsáætlunum:
5. Endurskoðun deiliskipulags 20 ha svæðis við Seyðishóla úr landi Klausturhóla sem kallast Kerbyggð. Verslun- og þjónusta í stað frístundabyggðar.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi 18. febrúar 2015 tillögu að endurskoðun/breytingu á deiliskipulagi um 20 ha svæði úr landi Klausturhóla sem nefnist Kerbyggð. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi var gert ráð fyrir 28 um 0,5 frístundahúsalóðum en breytt skipulag gerir ráð fyrir 51 lóð fyrir verslun – og þjónustu (útleiguhús) auk lóðar fyrir þjónustuhús. Tillagan var auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins 21. ágúst 2014 með athugasemdafresti til 3. október. Athugasemdir gáfu ekki tilefni til breytinga á tillögunni og hefur hún verið send Skipulagsstofnun til staðfestingar.
Samkvæmt 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt tillaga að eftirfarandi deiliskipulagi:
6. Deiliskipulag fyrir Loftsstaði-Eystri (lnr. 165472) í Flóahreppi. Íbúðarhúsa- og frístundahúsalóðir. (Uppdráttur)
Lögð fram til kynningar tillaga að deiliskipulagi sem nær til um 10 ha svæðis úr jörðinni Loftsstaðir-Eystri í Flóahreppi, Sunnan Villingaholtsvegar. Í tillögunni eru afmarkaðar sex 1,27 ha lóðir og er á þremur þeirra gert ráð fyrir íbúðarhúsum auk minniháttar atvinnustarfsemi (hugsanlega lögbýli) og á þremur verður heimilt að reisa frístundahús og fjölnotahús. Ennfremur er gert ráð fyrir 2 ha sameiginlegu svæði.
Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér auglýstar tillögur að eftirfarandi deiliskipulagsáætlunum:
7. Deiliskipulag fyrir iðnaðarsvæði/gámasvæði norðan við Flúðir, Hrunamannahreppi. (Uppdráttur)
Auglýst er tillaga að deiliskipulagi fyrir iðnðarsvæði/gámasvæði á svæði norðan við Flúðir í Hrunamannahreppi. Svæðið er í aðalskipulagi merkt P1. Í dag er þar starfrækt móttökusvæði fyrir úrgang, gámasvæði, en með deiliskipulaginu er gert ráð fyrir stækkun svæðisins úr 0,7 ha í 3 ha auk þess sem starfsemin er útvíkkuð í tengslum við frekari meðhöndlun á lífrænum úrgangi.Tillagan að breytingu á aðalskipulagi svæðisins er auglýst samhliða.
8. Breyting á deiliskipulagi íbúðarsvæðis á landi Eflingar innan þéttbýlisins Reykholt í Bláskógabyggð. (Uppdráttur)
Auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis innan lands Eflingar sem liggur austan við grunnskólann í Reykholti. Í breytingunni felst að íbúðarhúsalóðum fjölgar úr 7 í 12 auk þess sem gert er ráð fyrir nýrri aðkomu að svæðinu sem liggur um land Brautarhóls frá íbúðarbyggð við Kistuholt. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi vegna nýs vegar er auglýst samhliða.
9. Deilskipulag fyrir Ragnheiðarstaði 2 lnr. 222006 í Flóahreppi. Nýtt lögbýli. (Uppdráttur)
Auglýst er tillaga að deiliskipulagi nýs lögbýlis á landi úr jörðinni Ragnheiðarstaðir í Flóahreppi. Svæðið er í heild 193,7 ha og er 77,7 ha norðan Villingaholtsvegar og 116 ha sunnan vegarins. Gert er ráð fyrir byggingu íbúðarhúss, vélageymslu, hesthúss og annarra landbúnaðarbygginga.
Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma frá 9-16. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og tillögurnar sjálfar á vefslóðinni http://www.sbf.is.
Skipulagstillögur nr. 1 og 5 hafa verið sendar Skipulagsstofnun til afgreiðslu, tillögur nr. 2 og 6 er í kynningu frá 9. til 21. apríl en tillögur nr. 3 – 4 og 7 – 9 er í kynningu frá 9. apríl til 22. maí.
Frestur til að gera athugasemdir við tillögur 2 og 6 er til 21. apríl en 22. maí til að gera athugasemdir við tillögur 3 – 4 og 7 – 9. Athugasemdir og ábendingar skulu vera skriflegar.
Pétur Ingi Haraldsson
Skipulagsfulltrúi
petur@sudurland.is