Skipulagsnefndarfundur nr. 287, dags. 11. september 2024

Fundargerð skipulagsnefndar UTU 287. fundur skipulagsnefndar UTU haldinn í fjarfundi miðvikudaginn 11. september 2024 og hófst hann kl. 09:00

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Björn Kristinn Pálmarsson, Jón Bjarnason var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Herbert Hauksson, Walter Fannar Kristjánsson, Haraldur Þór Jónsson, Ísleifur Jónasson, Vigfús Þór Hróbjartsson skipulagsfulltrúi, Davíð Sigurðsson byggingarfulltrúi og Elísabet D. Erlingsdóttir aðstoðarmaður skipulagsfulltrúa.

Fundargerð ritaði:  Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi

Dagskrá:

                      Ásahreppur:
1.   Holtamannaafréttur; Búðarháls; Skilgreining efnistökusvæðis; Aðalskipulagsbreyting – 2405016
Lögð er fram skipulagslýsing er varðar skilgreiningu efnistökusvæðis á austanverðum Búðarhálsi, milli Tungnaár og vegarins að Sporðöldustíflu innan aðalskipulags Ásahrepps. Efnistökusvæðið er á gildandi deiliskipulagi Búðarhálsvirkjunar, merkt E8. Stærð námu verði 2,3 ha og heimiluð efnistaka allt að 49.000 m3.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við hreppsnefnd Ásahrepps að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
2.   Dvergabakki L165303; Dvergabakki A; Ný lóð; Reisa 6 smáhýsi; Deiliskipulag – 2403006
Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til lóðar Dvergabakka L1653030 í Ásahreppi eftir auglýsingu. Í skipulaginu felst skilgreining byggingarreita og byggingarheimilda fyrir gestahús innan jarðarinnar. Umsagnir bárust við tillöguna og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við hreppsnefnd Ásahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
3.   Litlaland; Auknar byggingarheimildir; Deiliskipulagsbreyting – 2409024
Lögð er fram tillaga óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Litlalands og Litlalands lóð. Í breytingunni felst að heildarbyggingarmagn innan reits B3 verður 1.700 fm í stað 1.500 fm áður. Byggingarreitur stækkar í takt við aukið byggingarmagn.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við hreppsnefnd Ásahrepps að samþykkja framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Að mati skipulagsnefndar hefur breytingin ekki áhrif á aðra hagsmunaaðila innan svæðisins en umsækjandi og er því ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Bláskógabyggð:
 4.   Framafréttur L223995; Efnistaka; Náma E129; Framkvæmdarleyfi – 2408048
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til efnistöku úr námu E129 vestan við Geldingarfell efnistakan er ætluð til viðhalds Skálpanesvegar. Samkvæmt umsókn er um að ræða framlengingu á leyfi sem fengið var 8/9´21, tilvísun 2108021, leyfið var ekki nýtt þá og er því sótt um endurnýjun leyfisins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimild verði veitt fyrir efnistöku allt að 5.000 m3 til viðhalds á Skálpanesvegi úr námu E129.
5.   Efra-Apavatn 1B L226188; Kolluholt; Stofnun lóðar – 2407022
Lögð er fram umsókn ásamt merkjalýsingu fyrir 15.000 fm lóð úr landi Efra-Apavatni 1B L226188 í samræmi við samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina. Óskað er eftir að lóðin fái staðvísinn Kolluholt með tilvísun í örnefni á svæðinu.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að ekki verði gerð athugasemd við stofnun lóðarinnar og að hún verði samþykkt á grundvelli reglugerðar um merki fasteigna nr. 160/2024. Nefndin mælist til þess við sveitarstjórn að ekki verði gerðar athugasemdir við staðfangið Kolluholt. Bendir nefndin á að staðfangið gæti verið nýtt sem staðvísir til framtíðar komi til þess að fleiri lóðir verði skipulagðar á svæðinu.
6. Fell L177478; Landbúnaðarsvæði (Engjaholt) í verslun- og þjónustu; Aðalskipulagsbreyting – 2404070
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til Fells L177478. Í tillögunni felst skilgreining á verslunar- og þjónustusvæði VÞ45 og frístundasvæðis F110. Innan breytingarinnar er gerð ráð fyrir heimild fyrir uppbyggingu hótels og bygginga því tengdu alls um 8.500 fm fyrir allt að 200 gesti. Auk þess er gert ráð fyrir heimild fyrir 100 litlum gistihúsum til útleigu. Heildarbyggingarmagns slíkra húsa geti verið allt að 3.500 fm fyrir allt að 200 gesti. auk þess er gert ráð fyrri heimild fyrir 15-20 íbúðar- útleigu og starfsmannahúsum á svæði norðan Biskupstungabrautar.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógbyggðar að samþykkja tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar og umsagnar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
7.  Fell L177478; Landbúnaðarsvæði (Engjaholt) í verslun- og þjónustu; Deiliskipulag – 2408104
Lögð er fram tillaga að nýrri deiliskipulagsáætlun sem tekur til lands Fells – Engjaholts, L177478, sem er um 16,3 ha að stærð. Samkvæmt fyrirliggjandi aðalskipulagsbreytingu á Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015 -2027, dagsett 23. ágúst 2024, eru um 13.9 ha svæðisins skilgreint sem verslun og þjónusta, merkt VÞ45 og um 2.4 ha sem frístundabyggð, merkt F110. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að landinu verði skipt upp í fimm lóðir. Á reit 1 er gert ráð fyrir 100 litlum gistihúsum til útleigu ásamt þjónustuhúsi. Á reit 3 er gert ráð fyrir hóteli og þjónustuhúsi á 3 -4 hæðum þar sem gert er ráð fyrir því að geta tekið við allt að 200 gestum. Auk þess er gert ráð fyrir því að á reitnum verði gert ráð fyrir baðlaugum sem verði þjónustaðar af hótelinu. Á lóð merkt 6 er gert ráð fyrir 15-20 húsum sem geta verið nýtt til útleigu til ferðamanna og sem íbúðar-/starfsmannahús. Gert er ráð fyrir að húsin geti verið allt að 200 fm hvert. Heildarbyggingarmagn verður að hámarki 4.000 fm. Lóðir merkar 2 og 4 verði frístundalóðir.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess að umferðarleiðir á milli svæða 2, 4, 6 og svæða 1 og 3 verði teknar til ítarlegri skoðunar við vinnslu deiliskipulagsins. Mælist nefndin jafnframt til þess að leitað verði samráðs við Vegagerðina um útfærslu vegtenginga og umferðaröryggis á svæðinu. Mælist nefndin til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að afgreiðslu málsins verði frestað.
8.  Gullfoss 1_2 L167192; Endurgerð og bæting göngustíga; Framkvæmdarleyfi – 2409001
Lögð er fram umsókn sem tekur til endurnýjunar og framlengingu á göngupalli við neðra bílastæði hjá Gullfossi. Framkvæmdin er í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að útgáfa framkvæmdaleyfis verði samþykkt á grundvelli heimilda deiliskipulags svæðisins.
9.  Gistiheimilið Iðufell L167389; Vatnstaka og fráveita; Framkvæmdarleyfi – 2409007
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til vatnstöku úr Hvítá í tengslum við uppbyggingu baðstaðar í Laugarási.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að ekki verði gerð athugasemd við útgáfa framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsækjanda er bent á að framkvæmdin er einnig háð leyfi fiskistofu vegna framkvæmda við veiðivötn.
10.  Bjarkarbraut 2 L224444 og Bjarkarbraut 4 L224445; Skipulagskvaðir; Fyrirspurn – 2409011
Lögð er fram fyrirspurn til skipulagsnefndar UTU er varðar takmarkanir sem settar voru á Bjarkarbraut 2 og 4 innan deiliskipulags fyrir þéttbýlið á Laugarvatni. Óskað er eftir því að kvaðir innan deiliskipulags verði felldar út úr deiliskipulagi og að upprunaleg lóðablöð verði tekin upp aftur með byggingarreit sem samræmist reglum sveitarfélagsins. Fyrrgreindar kvaðir deiliskipulags eru eftirfarandi:
„Ytra útlit gömlu heimavistarhúsanna við Bjarkarbraut skal halda sér og skulu allar breytingar og viðhald miðast við að færa þau í upprunalegt horf. Engir byggingrreitir eru því sýndir á þessum lóðum. Breyta má innra skipulagi og hugsanlega breyta notkun í skrifstofur, verslun og þjónustu eða annað“
Að mati skipulagsnefndar UTU er ástæða til að endurskoða heimildir deiliskipulags Laugarvatns sem taka til byggingarheimilda og skilgreiningar á byggingarreitum viðkomandi lóða við Bjarkarbraut 2 og 4. Mælist nefndin til þess við sveitarstjórn að samþykkt verði að hefja undirbúningsvinnu við gerð breytingar á deiliskipulagi sem tekur til skilgreiningar á byggingarreitum og heimildum er varðar uppbyggingu nýrra húsa á lóðunum.
Flóahreppur:
 11.   Eystri-Loftsstaðir 11 L227156; Brimhólar; Breytt heiti lóðar – 2408031
Lögð er fram umsókn um breytingu á staðfangi landeignarinnar Eystri-Lofsstaðir 11 L227156. Óskað er eftir að landeignin fái heitið Brimhólar. Fyrir liggur rökstuðningur eigenda fyrir nafninu.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við framlagða beiðni um breytt staðfang landsins og mælist til þess að sveitarstjórn Flóahrepps samþykki erindið. Að mati nefndarinnar væri æskilegt að Brimhólar verði staðvísir lóða innan svæðisins og skráning staðfanga annarra lóða við sömu aðkomu taki mið af því. Mælist nefndin til þess að sveitarstjórn Flóahrepps taki afstöðu til þess hvort nýr staðvísir lóða Eystri-Loftsstaða 1-11 skuli vera Brimhólar, samhliða verði númering lóðanna lagfærð í takt við aðkomu lóðanna.
12.   Mýrar L166366; 8 smábýli; Deiliskipulag – 2405052
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til jarðarinnar Mýrar L166366 í Flóahreppi eftir kynningu. Svæðið er skilgreint sem landbúnaðarland í flokki I-II í aðalskipulagi Flóahrepps 2017-2029 og hefur ekki áður verið deiliskipulagt. Aðkoma að svæðinu er um Hamarsveg sem er tengivegur og vegtengingum kemur ekki til með að fjölga. Deiliskipulag þetta tiltekur 8 nýjar landspildur (smábýli) ásamt því að tiltaka byggingarreiti innan lóðanna. Umsagnir bárust á kynningartíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.
Grímsnes- og Grafningshreppur:
13.   Syðri-Brú L168277; Sólbakki 12 L210825; Breyting skilmála; Deiliskipulagsbreyting – 2408085
Lögð er fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi sem tekur til frístundasvæðis í landi Syðri-Brúar nr. 6404. Í breytingunni felst að skilmálar vegna byggingarheimilda breytast úr því að heimilt sé að byggja að hámarki 150 fm hús og eitt smáhýs/geymslu að hámarki 30 fm að stærð í að á hverri lóð megi byggja eitt frístundahús og eitt aukahús s.s. geymslu/svefn eða gróðurhús allt að 45 fm. Hámarksbyggingarmagn lóðar skal ekki fara umfram nýtingarhlutfall 0,03 og takmarkast stærð frístundahúss við það hlutfall.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt innan skipulagssvæðisins.
14.   Svínavatn 168286; Framkvæmdarleyfi – 2409017
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til efnistöku úr námu E20 í landi Svínavatns. Gert er ráð fyrir allt að 10.000 m3 efnistöku að mestu til eigin nota innan jarðarinnar en gert er ráð fyrir að um 3-4.000 m3 fari í önnur verkefni. Á þeim tíma sem fyrirhugað er að losa efnið er áætlað að fara í vinnu við heildardeiliskipulag fyrir svæðið. Komi til þess að frekari efnistaka verði áætluð á svæðinu verði unnin tilkynningarskýrsla vegna mats á umhverfisáhrifum áframhaldandi efnistöku.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir viðkomandi efnistöku. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu. Mælist nefndin til þess að komi til frekari efnistöku úr námunni verði unnin tilkynning vegna mats á umhverfisáhrifum til Skipulagsstofnunar.
15.  Minna-Mosfell; Skilgreining efnistökusvæðis; Fyrirspurn – 2409018 – 2409018
Lögð er fram fyrirspurn sem tekur til beiðni um aðalskipulagsbreytingu vegna skilgreiningar á efnistökusvæði innan jarðar Minna-Mosfells. Áætlað er að efnistökusvæðið verði skilgreind allt að 50.000 m3 og 2,5 ha svæði. Tilgangur námunnar er að standa að efnistöku til eigin nota vegna fyrirhugaðra framkvæmda í takt við skilgreinda landnotkun frístundasvæðis innan jarðarinnar.
Samhliða aðalskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir því að lagt verði fram deiliskipulag sem tekur til viðkomandi frístundasvæðis F82.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að ekki verði gerð athugasemd við að unnin verði skipulagslýsing sem tekur til skilgreiningar á nýju efnistökusvæði innan jarðar Minna-Mosfells.
16. Nesjavallavirkjun L170925; Stækkun borsvæðis vinnsluholu NJ-37; Framkvæmdarleyfi – 2408087
Orka náttúrunnar sækir hér með um framkvæmdaleyfi vegna stækkunar á borsvæði fyrir borun á vinnsluholu NJ-37. Sótt er um leyfið í samræmi við 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012, um framkvæmdaleyfi. Fyrirhuguð framkvæmd er liður í borun nýrra vinnsluhola við Nesjavallavirkjun í þeim tilgangi að viðhalda vinnslugetu Nesjavallavirkjunar. Við útfærslu framkvæmda er áhersla lögð á að stækka núverandi borsvæði til að koma nýjum borholum fyrir, bæði til að draga eins og kostur er úr raski sem og að nýta innviði, s.s. vegi og lagnir, sem fyrir eru. Fyrirhuguð stækkun á borsvæði fór í fyrirspurnarferli á árinu 2024 (viðauki 1). Framkvæmdin felur í sér uppbyggingu borsvæðis út frá borsvæði holna NJ-11, NJ-24, NJ-25 og NJ-31 (myndir 1 og 2), lagningu aðkomuvegar og frágang.
Á grundvelli framlagðra gagna mælist skipulagsnefnd UTU til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að ekki verði gerðar athugasemdir við útgáfu framkvæmdaleyfis vegna viðkomandi borhola. Mælist nefndin til þess að við útgáfu framkvæmdaleyfis verði unnin greinargerð á grundvelli 10. og 12. gr. reglugerðar 772/2012 um framkvæmdaleyfi og 3. mgr. 27. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, en þar segir að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er rökstudd grein fyrir samræmi við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar. Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr., skal það koma fram í leyfinu.
17.    Rimamói 3 L169862; Sumarbústaðaland í landbúnaðarsvæði; Fyrirspurn – 2408088
Lögð er fram fyrirspurn sem tekur til lóðarinnar Rimamóa 3 sem skilgreind er innan frístundasvæðis F84 innan jarðar Þórisstaða. Í fyrirspurninni felst beiðni um breytta notkun lóðarinnar úr frístundabyggð í landbúnaðarsvæði með það að markmiði að geta haft fasta búsetu á svæðinu og aukið byggingarmagn innan lóðarinnar. Aðliggjandi landeignir til norðurs eru innan landbúnaðarsvæðis. Stærð lóðarinnar samkvæmt skráningu HMS er 1 ha.
Lóðin sem um ræðir uppfyllir að mati skipulagsnefndar nokkur af þeim skilyrðum sem lóðir innan frístundasvæða þurfa að uppfylla með það að markmiði að breyta landnotkun í landbúnaðarland L3, landbúnaðarland með rúmum byggingarheimildum. Lóðin er aðliggjandi svæði sem skilgreint er sem landbúnaðarland innan aðalskipulags en þó eingöngu frá einni hlið, hún er í góðri tengingu við stofn- eða tengiveg og hún nær lágmarksstærð sem miðað er við gagnvart slíkum lóðum. Að mati nefndarinnar væri þó æskilegt að slík breyting væri skoðuð í tengslum við stærra svæði sambærilegra lóða. Jafnframt bendir nefndin á að þótt svo að lóðin Rimamói 1 sé utan frístundasvæðis í aðalskipulagi sveitarfélagins er lóðin skráð sem sumarhúsalóð og hús innan lóðarinnar skráð sem sumarhús. Nefndin vísar fyrirspurninni til afgreiðslu og umræðu innan sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps.
18.   Villingavatn III L224665; Spennistöð Rarik; Stofnun lóðar – 2409006
Lögð er fram merkjalýsing sem tekur til stofnunar lóðar fyrir spennistöð innan dreifikerfis Rarik ohf.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að ekki verði gerð athugasemd við stofnun lóðarinnar á grundvelli framlagðrar merkjalýsingar og að hún verði samþykkt á grundvelli reglugerða um merki fasteigna nr. 160/2024.
19.   Suðurbakki 3 L232548; Rekstrarleyfi; Deiliskipulagsbreyting – 2409012
Lögð er fram umsókn um deiliskipulagsbreytingu sem tekur til frístundabyggðar í landi Ásgarðs, hluti III (Búrfellsvegur að Sogi). Í breytingunni felst að heimilt verði að stunda rekstrarleyfisskylda útleigu sumarhúsa innan deiliskipulagssvæðisins í takt við heimildir aðalskipulags.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að viðkomandi breyting á deiliskipulagi svæðisins verði samþykkt. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingu á deiliskipulagi. Mælist nefndin til þess að breytingin verði auk þess sérstaklega grenndarkynnt öllum lóðarhöfum innan skipulagssvæðisins samhliða auglýsingu breytingarinnar.
20.   Villingavatn L170831; Einbúi 4; Stofnun lóðar – 2408091
Lögð er fram umsókn ásamt lóðablaði er varðar stofnun lóðar. Óskað er eftir að stofna 11.000 fm lóð, Einbúi 4, úr landi Villingavatns L170831.
Við afgreiðslu sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps vegna stofnunar lóðar úr upprunalandi Villingavatns L170831, þann 19.6.2024, kom fram í bókun málsins að það væri mat sveitarstjórnar að nauðsynlegt væri að horfa til heildarstefnumörkunar og skipulagsgerðar innan jarðar Villingavatns kæmi til áframhaldandi uppskiptingar á lóðum innan jarðarinnar. Á grunni fyrrgreindrar bókunar sveitarstjórnar mælist skipulagnsnefnd UTU til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að umsókn um stofnun lóðar verði synjað og stofnun lóðarinnar verði sett í samhengi við deiliskipulagsáætlanir innan jarðarinnar og stefnumörkun aðalskipulags.
21.  Hestvíkurvegur 16-24 og Réttartjarnarvegur 1-5; Breyttar byggingarheimildir; Deiliskipulagsbreyting – 2409020
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til deiliskipulags Hestvíkurvegar 16-24 og Réttartjarnarvegar 1-5. Í breytingunni felst að hámarksbyggingarmagn frístundahúsa er breytt úr hámarksbyggingarmagni 150 fm í hámarks nýtingarhlutfall 0,03.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt innan skipulagssvæðisins.
Hrunamannahreppur:
22.   Brúarhlöð L234128; Uppbygging ferðamannaaðstöðu; Deiliskipulag – 2404027
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til lands Brúarhlaða L234128 eftir yfirferð Skipulagsstofnunar. Um er að ræða nýtt deiliskipulag fyrir uppbyggingu ferðamannaaðstöðu. Skipulagið tekur til um 2,5 ha svæðis á austurbakka Hvítár við Brúarhlöð. Helstu markmið deiliskipulagsins eru að unnið sé heildarskipulag fyrir móttöku ferðamanna á svæðinu sem tekur til bílastæðis, göngustígs með áningarstöðum, útsýnispalla og þjónustuhúss þar sem verður m.a. veitinga- og snyrtiaðstaða. Settir eru fram byggingarskilmálar um uppbyggingu á svæðinu sem tekur tillit til sérstöðu svæðisins og náttúrufars. Með skipulaginu er dregið úr líkum á umhverfisspjöllum vegna ágangs gesta. Svæðið verði betur varið gagnvart álagi á gróðurþekju og náttúru- og menningarminjar. Með skilgreiningu umferðarleiða verði umferð gangandi fólks á öruggum og afmörkuðum göngustígum sem bjóða upp á gott aðgengi og fallegt útsýni yfir svæðið þar sem miðlað verður upplýsingum til gesta um sögu þess. Auk þess er gert ráð fyrir því að skipulagið stuðli að því að gestir geti notið kyrrðar og áhrifa svæðisins. Sérstök áhersla verður á að mannvirki falli vel að landslagi og ásýnd svæðisins. Athugasemdir voru gerðar við gildistöku tillögunnar að hálfu Skipulagsstofnunar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt athugasemda og viðbragða.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögn Skipulagsstofnunar sem barst vegna málsins með fullnægjandi hætti innan samantektar á athugasemdum og viðbrögðum sem lögð eru fram við afgreiðslu málsins. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Gögnin verði send Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
23.   Hlíð spilda 1 L221538; Frístundasvæði; Endurskoðað deiliskipulag – 2008063
Lögð er fram að nýju tillaga deiliskipulags vegna Hlíðar spildu 1 L221538. Deiliskipulagið tekur til skiptingu landsins, skilgreiningu byggingarreita og byggingarheimilda innan svæðisins. Við gildistöku skipulagsins fellur núverandi deiliskipulag svæðisins úr gildi. Tillagan byggir á deiliskipulagi fyrir svæðið sem samþykkt var árið 2000 en tók ekki í gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Afgreiðslu tillögunnar var frestað eftir auglýsingu en er nú tekin fyrir að nýju með uppfærðum gögnum.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins. Að mati skipulagsnefndar hefur verið brugðist við fyrri bókun nefndarinnar vegna málsins með fullnægjandi hætti innan framlagðra gagna.
24. Efra-Sel golfvöllur L203094; Breyttur byggingarreitur og hótel; Aðalskipulagsbreyting – 2404066
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til Efra-Sels í Hrunamannahreppi. Viðfangsefni aðalskipulagsbreytingarinnar er að fjölga herbergjum hótels/gistiheimilis á reit VÞ5. Aðalskipulagsbreytingin er forsenda fyrir breytingu á gildandi deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæðis við Efra-Sel. Innan gildandi aðalskipulags Hrunamannahrepps er gert ráð fyrir allt að 80 gistirúmum á allt að 5 ha svæði. Eftir breytingu verður gert ráð fyrir allt að 170 gistirúmum og allt að 5 ha svæði. Athugasemdir bárust á kynningartíma skipulagslýsingar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu tillögunnar ásamt samantekt skipulagsráðgjafa við umsögnum og athugasemdum sem bárust vegna kynningar á skipulagslýsingu.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar og umsagnar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að mati skipulagsnefndar fjalla framlagðar athugasemdir málsins að mestu um útfærslu skipulagsbreytinga á stigi deiliskipulagsáætlunar og er ekki talin ástæða til að taka afstöðu til þeirra á þessu stigi málsins. Að mati nefndarinnar eru forsendur fyrir auknum heimildum innan aðalskipulags varðandi gestafjölda innan verslunar- og þjónustusvæðis m.t.t. staðsetningar hótelsins, nálægð við þéttbýlið á Flúðum og nálægð við afþreyingu. Nánari útfærsla sem tekur m.a. til fjölda gesta, aðkomu og bílastæða á svæðinu verði útfærð nánar í deiliskipulagi svæðisins.
25.   Móakot 2 L202921; Fækkun lóða; Deiliskipulagsbreyting – 2408086
Lögð er fram umsókn um óverulega breytingu á deiliskipulagi sem tekur til frístundalóða Móakots 2-4. Í breytingunni felst fækkun lóða úr þremur í tvær auk þess sem byggingarmagn innan lóðanna eykst úr 90 fm í 150 fm.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
26.    Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 24-210 – 2408004F
Lögð er fram til kynningar fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 24-210.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:50