Samkvæmt 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa.

Umsókn um byggingarleyfi eða byggingarheimild skal send byggingarfulltrúa í gegnum rafræna þjónustugátt embættisins ásamt hönnunargögnum og öðrum nauðsynlegum gögnum, þ.m.t. tilkynningu um hver verði hönnunarstjóri mannvirkisins og samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Erindi til afgreiðslu byggingarfulltrúa ásamt fullnægjandi gögnum þurfa að hafa borist í síðasta lagi í lok þriðjudags í vikunni fyrir afgreiðslufund til að mál verði tekið fyrir.

Almennt í samskiptum byggingarfulltrúa og aðila sem koma að byggingarframkvæmdum eru eftirfarandi gögn höfð að leiðarljósi:

Mannvirkjalög nr. 160/2010

Byggingarreglugerð nr. 112/2012

Deiliskipulagsskilmálar viðkomandi hverfis.  (Sjá Kortasjá á www.map.is/sudurland, haka við deiliskipulag)

 

Embætti byggingarfulltrúans starfar á grundvelli mannvirkjalaga, byggingarreglugerðar og samþykkt sveitastjórna um embættisafgreiðslur byggingarfulltrúa svo og öðrum lögum, reglugerðum og samþykktum er byggingarmál varða.

Hjá Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita er starfandi byggingarfulltrúi sem er yfirmaður byggingarmála í Grímsnes- og Grafningshrepp, Bláskógabyggð, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Hrunamannahrepp, Flóahrepp og Ásahrepp.

Byggingarfulltrúi er Davíð Sigurðsson og veitir hann ásamt aðstoðarmönnum sínum jafnframt nánari upplýsingar bæði í tölvupósti, utu@utu.is og í síma á símatíma milli kl. 9.00 og 12.00 alla virka daga – nema miðvikudaga.

Hlutverk byggingafulltrúa er að veita eigendum, sveitarstjórnarmönnum, hönnuðum, byggingarverktökum og öðrum sem á þurfa að halda, góða þjónustu, ráðgjöf og upplýsingar um byggingarmál.

Umsóknir um byggingarleyfi eða byggingarheimild og tilkynningar um byggingarstjóra og iðnmeistara skulu fara fram í gegnum rafræna þjónustugátt embættisins.

Á skrifstofu Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. að Hverabraut 6 á Laugarvatni og á skrifstofu Flóahrepps í Þingborg er móttaka á teikningum og séruppdráttum.  Einnig sér embættið um framkvæmd stöðu-, öryggis- og lokaúttekta, skráningu í Þjóðskrá Íslands,  staðfestingu á eignaskiptayfirlýsingum og umsagnir vegna rekstrarleyfa. Byggingastjórar sjá nú um áfangaúttektir byggingaframkvæmda í gegnum rafrænar þjónustugáttir og tilkynna þær inn til embættisins.

Reynt er eftir bestu getu að leiðbeina og veita upplýsingar um það sem tengist byggingarmálum.

Hér eru algengar spurningar og svör um byggingarreglugerð. – Spurt og svarað